• Frá umræðufundi í Kaupmannahafnarháskóla: Forseti ásamt Ralf Hemmingsen rektor skólans.
Fréttir | 25. jan. 2017

Opinber heimsókn - síðari dagur

Síðari dagur opinberrar heimsóknar forseta Íslands og forsetafrúar til Danmerkur hófst með heimsókn í Norrænu rannsóknarstofnunina við Kaupmannahafnarháskóla sem hýsir Árnasafn, hinn danska hluta handritasafns Árna Magnússonar. Eftir að Ralf Hemmingsen, rektor Kaupmannahafnarháskóla, hafði ávarpað forseta og forseti ávarpað gesti skoðaði hann nokkur af merkustu handritum safnsins, verkstæði og lesstofu og ræddi við starfsmenn og gesti. Þvínæst hélt forseti ásamt sendinefnd í húsakynni danska iðnrekendasambandsins, Dansk industri, við Ráðhústorgið þar sem hann flutti ávarp og nokkrir Íslendingar aðrir kynntu fyrst sjónarmið Íslendinga um sjálfbærni og góða nýtingu sjávarafla og svo starfsemi nokkurra fyrirtækja á vettvangi tækni og nýsköpunar sem tengist sjávarútvegi. Í sömu byggingu skoðaði forseti svo stofnun sem kallast State of Green sem stendur að stefnumótun og kynningu á sjónarmiðum danskra stjórnvalda um sjálfbærni.

Næsti áfangastaður forseta og sendinefndar hans var skrifstofa Alþjóða hafrannsóknaráðsins en þar vinna vísindamenn að samstillingu á starfi þúsunda fræðimanna frá ýmsum löndum um hafið og lífríki hafsins meðal annars í þeim tilgangi að bæta ráðgjöf til stjórnvalda um stöðu nytjastofna.

Meðan forseti heimsótti þessa staði skoðaði forsetafrú leikskóla, sem þótt hefur skara framúr á ýmsum sviðum, í fylgd Mary krónprinsessu. Þær heimsóttu einnig skrifstofur stofnana Sameinuðu þjóðanna sem eru með starfsemi í Kaupmannahöfn.

Í hádeginu kom forseti til umræðufundar í gömlum hátíðarsal Kaupmannahafnarháskóla þar sem fjallað var um popúlisma og þjóðernishyggju frá ýmsum hliðum. Forseti flutti upphafsávarp og í kjölfarið lögðu ýmsir íslenskir og danskir fræðimenn orð í belg.

Að þessari morgundagskrá lokinni heimsóttu forseti og fylgdarlið Copenhagen Hospitality School, stóran skóla þjóna og matreiðslumanna, þar sem boðið var upp á smökkun og hádegisverð jafnframt því sem starfsemin var kynnt. Flutti forseti þarna stutt ávarp eins og almennt á viðkomustöðum sínum í heimsókninni.

Næst lá leiðin í Bredgade Kunsthandel, lítið gallerí þar sem forseti opnaði sýningu á listaverkum íslenskra listmálara sem dvalið hafa og sumir lært í Kaupmannahöfn um áratug skeið, allt frá Jóhannesi Kjarval til Hörpu Björnsdóttur.

Um kvöldið bauð forseti Íslands til móttöku til heiðurs Margréti Danadrottningu í Nordatlantens Brygge og mætti þar fjölmenni. Að loknu ávarpi forseta fluttu íslenskir tónlistarmenn sönglög og Einar Már Guðmundsson rithöfundur hélt ræðu en á boðstólum voru ýmsar kræsingar og drykkjarföng sem íslensk fyrirtæki höfðu gefið til veislunnar. Meðal gesta voru, auk Margrétar drottningar og Hinriks prins, Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa, Jóakim prins og Marie prinsessa, Benedikte prinsessa systir drottningar, fjöldi ráðherra, fjölmargir sem þátt áttu í skipulagi og framkvæmd heimsóknarinnar, gestir sem tengdust bókagjöfinni til Dana og fulltrúar samfélags Íslendinga í Danmörku.

Ræða forseta hjá Dansk Industri (á ensku).
Ræða forseta í móttöku til heiðurs Margréti II Danadrottningu (á dönsku).

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar