Forsetasetrið á Bessastöðum

Bessastaðir eru aðsetur forseta Íslands og jafnframt staður sem á sér mikilvægan sess í sögu landsins.

Forsetasetrið Bessastaðir er jörð á Álftanesi sem á sér sögu frá landnámstíð (sjá nánar hér). Í núverandi mynd eru Bessastaðir þyrping bygginga þar sem eru meðal annars Bessastaðastofa, móttökusalur, þjónustuhús, íbúðarhús forseta, íbúðarhús staðarhaldara og umsjónarmanns, Bessastaðakirkja og bílageymsla. Bessastaðastofa er heiti elstu byggingarinnar sem er sú sem stendur næst kirkjunni.

Mikill fjöldi gesta sækir Bessastaði heim á ári hverju, ýmist sem boðsgestir eða ferðamenn. Þá hafa hópar getað skoðað staðinn eftir nánara samkomulagi með því að hafa samband við umsjónarmann fasteigna þar.

Síðar á árinu 2017 er ætlunin að opna Bessastaði í ríkara mæli og bjóða þeim sem vilja að skrá sig í skoðunarferð um Bessastaðastofu.