Eliza Jean Reid

(Ljósmynd: Sigurgeir Sigurjónsson)

Eliza Jean Reid forsetafrú fæddist árið 1976 í Ottawa í Kanada. Hún flutti til Íslands í ágúst 2003 og árið eftir giftist hún Guðna Th. Jóhannessyni en þau kynntust fyrst við Oxfordháskóla árið 1998.

Þau Guðni eiga fjögur börn saman sem heita Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Eliza er með BA Honours gráðu í alþjóðasamskiptum frá Trinity College við Háskólann í Toronto og við þann skóla var hún oddviti stúdenta (e. Head of College) á lokaári sínu. Hún er einnig með Master of Studies gráðu í nútímasögu frá St. Antony’s College við Oxford háskóla. Hún talar auk móðurmálsins frönsku og íslensku.

Eliza er annar af stofnendum Iceland Writers’ Retreat, árlegs móts erlendra rithöfunda sem hingað koma bæði til að skrifa og til að kynnast íslenskum bókmenntaarfi og öðru menningarlífi.

Jafnframt vinnu við þetta fyrirtæki hefur Eliza tekið að sér margvísleg verkefni sem höfundur, stjórnandi og ritstjóri og má nefna að hún ritstýrði flugtímariti Icelandair á árunum 2012-2016. Einnig starfaði hún sem höfundur hjá Iceland Review á árunum 2005-2008 og hefur birt efni í blöðum og tímaritum á borð við The Globe and Mail og Monocle. Erlendir fjölmiðlar leita oft til hennar til að ræða íslensk þjóðmál og dægurmál og hefur hún t.d. komið fram hjá BBC Radio Scotland, CBS Radio, CBC Television and Radio, France 24 og RTE.

Eliza hefur starfað sem sjálfboðaliði í Kanada, á Bretlandi og Íslandi og vann í nokkur ár sjálfboðaliðsstörf fyrir Rauða krossinn á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Hún var í foreldraráði á leikskóla, var formaður í samtökum enskumælenda á Íslandi (English-Speaking Union of Iceland, 2009-2013) en það eru alþjóðleg góðgerðasamtök.

Meðal annarra fyrri starfa Elizu má nefna að hún vann í markaðsdeild Calidris (2003-2004) og í sölu- og markaðsdeild De La Rue í Bretlandi (1999-2003).

Eliza hefur mikinn áhuga á ferðalögum og hefur ferðast til fjarlægra landa á borð við Úsbekistan og Benín. Hún er í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) á Íslandi og var til skamms tíma félagi í Society of American Travel Writers. Þá hefur Eliza áhuga á tónlist og var um tíma félagi í Mótettukórnum í Reykjavík.