Fréttir | 23. mars 2017

Heimsókn til Björgvinjar

Forseti og forsetafrú heimsóttu Björgvin í dag 23. mars. Hófst dagurinn með skoðunarferð um Bryggen, gamalt vöruhúsahverfi við höfnina sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Kim Lingjærde, ræðismaður Íslands og stjórnarformaður í Stiftelsen Bryggen, kynnti forseta sögu húsanna og hið vandasama viðhald þeirra.
Þá tók forseti ásamt Haraldi Noregskonungi þátt í fundi um nýsköpun í sjávarútvegi, sem skipulagður var af Íslandsstofu og fleiri aðilum; næst lá leiðin í starfsstöð Háskólans í Björgvin og Hafrannsóknastofnunarinnar þar og skoðuðu gestirnir köfunar- og rannsóknartæki, hlustuðu á sýnishorn af hvalasöng og kynntust verklagi við merkingar á makríl. Í hádeginu flutti forseti fyrirlestur í hátíðarsal Háskólans í Björgvin og fjallaði þar meðal annars um hvernig sagnfræði hefur verið beitt í þágu sjálfstæðisbaráttu og tók dæmi úr íslenskri sögu og norskri. Fyrirlesturinn flutti forseti á ensku og má lesa hann hér. Í kjölfarið voru stuttar pallborðsumræður.
Að þessu loknu bauð borgarstjóri Björgvinjar til hádegisverðar í Hákonarhöll sem er glæsileg bygging frá tíma Hákonar gamla Hákonarsonar sem Íslendingar tóku til konungs á 13. öld og má því kannski segja að salurinn hafi hýst ríkisráð Íslands á fyrri tíð. Flutti forseti ávarp í upphafi málsverðarins og má lesa það hér (og á norsku hér).
Dagskrá ríkisheimsóknarinnar lauk með stuttum tónleikum í sumarhúsi Edvards Griegs með verkum eftir hann; í húsinu er safn til minningar um þetta mikla tónskáld.

Fréttir á vef norsku hirðarinnar um ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar