Fréttir | 17. maí 2017

Opinber heimsókn forseta til Færeyja

Forseti og forsetafrú hófu daginn á að sækja stutta bókmenntadagskrá í húsi Williams Heinesens í Þórshöfn og hitta þar nokkra rithöfunda. Þá var haldið í ráðhús bæjarins og rætt við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa en í kjölfarið heimsóttur nýr og glæsilegur skóli, Skólinn á Argjahamri, þar sem nemendur sýndu dansatriði og sungu. Við það tækifæri tók forseti einnig við flöskuskeyti sem Ævar vísindamaður sendi út í heim frá Íslandi og íslensk fjölskylda fann í Húsavík í Færeyjum eftir að það hafði ferðast 18.000 kílómetra leið.
Næsti viðkomustaður var SEV, sem er orkuveita Þórshafnar og nágrennis en þar skoðaði forseti vindmyllugarð og fræddist um metnaðarfullar áætlanir Færeyinga á sviði grænnar orku. Markmið þeirra er að nýta ekki annað en sjálfbæra orku á þurru landi árið 2030.
Í hádeginu sat forseti ásamt fylgdarliði hádegisverð í boði bæjarstjórnar Þórshafnar og heimsótti í kjölfarið stjórnarráðið á Þinganesi og Lögþingið þar skammt frá svo og Ræðisskrifstofu Íslands.
Í kvöld býður lögmaður Færeyja, Aksel V. Johannesen, til hátíðarkvöldverðar til heiðurs forseta Íslands og frú Eliza Reid.

Ávarp forseta í hádegisverði bæjarstjórnar Þórshafnar á íslensku, færeysku og dönsku.

Ávarp forseta á Lögþingi Færeyinga á íslensku, færeysku og dönsku.

Ávarp forseta í kvöldverði lögmanns Færeyja á íslensku, færeysku og dönsku.

Myndasafn: Heimsókn til Færeyja, 17. maí 2017.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar