Fréttir | 19. jan. 2018

Lokadagur Svíþjóðarheimsóknar

Á þriðja og síðasta degi hinnar opinberu heimsóknar til Svíþjóðar héldu forsetahjónin til Uppsala. Þar hófst dagskráin í Landbúnaðarháskólanum þar sem tveir fræðimenn sögðu frá rannsóknum sínum á heildarmynd fæðuframleiðslu og á úthaldi íslenska hestsins. Næst var farið í Ångström tilraunastofuna þar sem hlýtt var á erindi um nýjungar í orkuframleiðslu og viðbrögð við náttúruhamförum en þvínæst tóku stjórnendur Uppsalaháskóla formlega á móti gestunum í aðalbyggingu skólans. Í kjölfarið fluttu tveir fræðimenn kynningar um rannsóknir sínar á sviði miðaldafræði. Annar þeirra, Gísli Sigurðsson, sagði frá túlkun á eddukvæðum en í kjölfarið var haldið í háskólabókasafnið þar sem gestum bauðst að skoða dýrmætt handrit Snorra-Eddu, hina svonefndu Uppsala-Eddu, og fleiri merkar bækur. Að þessu loknu bauð landshöfðingi Uppsalaléns til hádegisverðar í Uppsalahöll en þar afhenti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fyrir hönd íslenskra fyrirtækja og stjórnvalda bókargjöf til Svía, 400 sett af Íslendingasögum í nýrri sænskri þýðingu. Það var menntamálaráðherra Svía sem veitti gjöfinni viðtöku en við sama tækifæri flutti Lars Lönnroth stutt erindi um fornsögurnar. Að loknum málsverði kvöddu sænsku konungshjónin forseta og forsetafrú og með því lauk hinni opinberu heimsókn til Svíþjóðar.

Myndasafn úr ferðinni (flestar myndanna eru eftir Leif Rögnvaldsson).

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar