Fréttir | 28. feb. 2018

Olnbogabörn

Forseti á fund með fulltrúum Olnbogabarna, samtaka sem eru vettvangur fyrir aðstandendur unglinga í áhættuhegðun. Á fundinum var rætt um þær raunir sem unglingar geta ratað í vegna geðraskana, ekki síst þegar við bætist fíkninefnavandi. Rætt var um vankanta og oftar en ekki úrræðaleysi sem ríkir í þessum málum þótt ekki vanti góðan vilja ráðamanna, starfsfólks og sérfræðinga. Fulltrúar Olnbogabarna bentu sérstaklega á þann vanda sem hlýst af því að unglingar sem þurfa brýna aðstoð geta þurft að bíða í óratíma eftir henni og á meðan verði illt verra. Þá var vikið að nauðsyn þess að verja auknu fjármagni til þess að hjálpa unglingum með geðraskanir og að slíkar fjárveitingar skili sér í lífsglaðari og heilbrigðari ungmennum sem verði til góðs fyrir þau og samfélagið allt.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar