• Ljósmynd: Friðrik Þór Halldórsson.
Fréttir | 13. mars 2020

Dregið úr starfsemi

Vegna nauðsynlegra ráðstafana til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, verður starfsemi embættis forseta Íslands takmörkuð á ýmsa vegu frá og með mánudeginum 16. mars. Væntanlega munu þær ráðstafanir vara í fjórar vikur. Fundir á vegum embættisins falla niður, fyrir utan sérstök tilvik sem verða vegin og metin hverju sinni. Vilji fólk hafa samband við embættið er það beðið að senda tölvupóst á netfangið forseti@forseti.is eða hringja á skrifstofutíma í síma 540-4400 frekar en að gera sér ferð á skrifstofuna.

Skrifstofa forseta Íslands verður opin á hefðbundnum skrifstofutíma en viðvera starfsfólks mun taka mið af aðstæðum. Einn starfsmaður embættisins er í sóttkví eftir að hafa verið nærri manneskju sem greinst hefur með veiruna. Starfsmaðurinn hefur þó verið án sjúkdómseinkenna. Á Bessastöðum hefur öllum viðburðum verið slegið á frest en næstu vikur verða nýttar til ýmiskonar framkvæmda þar og viðhalds.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar