Fréttir | 22. júní 2020

Umhverfisvænna ál

Forseti heimsækir bækistöðvar Arctus hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Við hátíðlega athöfn þar tók forseti á móti fyrstu álstönginni sem starfslið Arctus hefur framleitt með nýjum og byltingarkenndum hætti. Notuð eru rafskaut úr málmblöndum og keramiki í stað kolefnisskauta og þá myndast ekki koltvísýringur, heldur eingöngu ál og súrefni. Jón Hjaltalín Magnússon, forstjóri Arctus, kynnti framleiðsluferlið, samstarfstarfsaðila innanlands og utan- og framtíðaráform. Forseti flutti einnig ávarp og minnti þar á mikilvægi nýsköpunar, ekki síst nauðsyn þess að leita umhverfisvænni leiða í framleiðslu og vöruþróun. Þá leyfði forseti sér að nefna að þótt Jón Hjaltalín væri kominn af léttasta skeiði væri hann í fararbroddi framsýnna frumkvöðla; í heimi nýsköpunar ætti kynslóðabil ekki heima.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar