Fréttir | 11. júní 2022

Varðskipið Óðinn

Forseti flytur ávarp við komu Óðins í Grindavíkurhöfn. Varðskipið Óðinn þjónaði Íslendingum í nær hálfa öld, kom til landsins 1960, sinnti frá upphafi björgun á hafi úti og stóð í ströngu í þorskastríðum. Nú er Óðinn safnskip, helsta prýði Sjóminjasafnsins í Reykjavík, en fékk nýlega haffærisskírteini.

Árla morguns sigldi Óðinn úr Reykjavíkurhöfn undir stjórn Vilbergs Magna Óskarssonar, skipherra og skólastjóra Skipstjórnar- og Véltækniskólanna. Forseti var með í för og á hafi úti tók skipið þátt í sigæfingu með TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þegar til Grindavíkur var komið hófst hátíðarathöfn. Egill Þórðarson, einn liðsmanna Hollvinasamtaka Óðins, stýrði henni. Auk forseta fluttu ávörp Takeyoshi Kidoura, forstjóri skipasmíðastöðvar í Japan sem gaf nýtt mastur á stefni sem nú prýðir skipið, Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar í Grindavík, og Guðmundur Hallvarðsson, formaður Hollvinasamtaka Óðins. Þá fór Magni skipherra með sjóferðabæn Odds V. Gíslasonar og séra Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur Grindvíkinga, flutti blessunarorð.

Í ávarpi sínu þakkaði forseti forstjóra hinnar japönsku skipasmíðastöðvar og föruneyti hans fyrir góða gjöf. Einnig rakti hann farsælan feril Óðins í þjónustu Íslendinga og færði liðsmönnum Hollvinasamtakanna innilegar þakkir fyrir ómetanleg störf við viðhald og viðgerðir á Óðni eftir að hann varð safnskip í Reykjavíkurhöfn.

Að hátíðarathöfn lokinni var Óðinn opinn gestum og gangandi á Sjóaranum síkáta, fjölskylduhátíð við Grindavíkurhöfn í tilefni sjómannadagsins sem stendur yfir alla þessa helgi.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar