Fréttir | 24. ágú. 2022

Vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins

Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 24. ágúst, vill embætti forseta Íslands koma eftirfarandi á framfæri: Ósatt er með öllu að til hafi staðið að bjóða ekki Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, til hátíðarviðburðar í tilefni þess að rúm 30 ár eru liðin frá því að Ísland tók á ný upp stjórnmálasamband við Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen.

Á boðslista viðburðarins eru, auk sendinefnda Eystrasaltsríkjanna, ráðherrar ríkisstjórna Íslands á árunum 1988-1991 og 1991-1995, og fyrrverandi sendiherrar og ræðismenn frá þessum árum. Fyrrverandi utanríkisráðherra fékk boð sama dag og aðrir boðsgestir eins og ætíð stóð til, með svipuðum fyrirvara og gengur og gerist um viðburði af þessu tagi. Auðvelt hefði verið fyrir blaðið að sannreyna þetta með einu símtali. Auk þess er rétt að leiðrétta þá rangfærslu að viðburðurinn fari fram í Háskólabíói. Hið rétta er að hann fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Einnig má taka fram að þegar aldarfjórðungur var liðinn frá endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltslandanna árið 2016 bauð forseti Jóni Baldvin Hannibalssyni til viðburðar á Bessastöðum í tilefni þeirra merku tímamóta. Óhætt er að fullyrða að enginn annar Íslendingur en núverandi forseti (fyrir utan Jón sjálfan) hefur vakið eins oft og vel athygli á atbeina hans örlagaárið 1991 þegar íslensk stjórnvöld studdu dyggilega við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar