Fréttir | 28. feb. 2023

Lýðheilsuverðlaun

Forseti hefur tilkynnt um ný verðlaun, Íslensku lýðheilsuverðlaunin, sem efnt er til í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Geðhjálp og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Ráðgert er að veita lýðheilsuverðlaunin í fyrsta sinn í vor og er óskað tillagna frá almenningi um hver ættu að hljóta þessa viðurkenningu fyrir framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi.

Íslensku lýðheilsuverðlaununum er ætlað að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan almennings. Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar til einstaklings og hins vegar til samtaka, stofnunar eða fyrirtækis sem hefur látið gott af sér leiða á þessu sviði. 

Lýðheilsa er samheiti yfir bæði heilsuvernd og forvarnir. Lýðheilsustarf byggir á samvinnu um að bæta heilbrigði þjóðarinnar, líðan og lífsgæði í samfélaginu. Litið er jafnt til líkamlegrar og andlegrar heilsu. Vitað er að útivist og hreyfing geta stuðlað að góðri lýðheilsu, eins og margs konar forvarnir og menntun, geðrækt og góð heilbrigðisþjónusta, svo dæmi séu nefnd. Með því að efla lýðheilsu eflum við um leið mann- og félagsauð þjóðarinnar og aukum almenna vellíðan.

Almenningur er hvattur til að senda inn tillögur að verðugum verðlaunahöfum, ásamt rökstuðningi, á vefsíðunni lydheilsuverdlaun.is fyrir 20. mars. Dómnefnd mun fjalla um tillögurnar og tilnefna þrjár í hvorum flokki. Tvenn verðlaun verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í síðari hluta apríl.

Sjá einnig fréttatilkynningu.

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar