Forseti flytur ávarp við opnun sýningarinnar Hamskipti í Gerðarsafni í Kópavogi. Titill sýningarinnar vísar til þeirrar þróunar sem varð á listsköpun Gerðar Helgadóttur á löngum ferli. Gerðarsafn fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni var gefin út bókin Leitað í tómið sem er safn fræðigreina um listköpun Gerðar Helgadóttur.
Í ávarpi sínu benti forseti á að sjálf væri hún stoltur Kópavogsbúi á heimaslóðum. Í æsku hefði hún leikið sér í Kirkjuholtinu og æ síðan verið stolt yfir þeim metnaði sem Kópavogsbær sýndi þegar Gerðarsafn var reist þar. Safnið er fyrsta og til þessa dags hið eina sem tileinkað er listakonu hér á landi. Forseti sagði athyglisvert hvernig Gerðarsafn leggi áherslu á að bjóða ólíkum þjóðfélagshópum að taka þátt í mótun viðburða. Í ungmennaráði fái unglingar tækifæri til að kynnast myndlist og menningarstarfi og skapa sýningar og viðburði. Þá hafi safnið gefið listamönnum af erlendum uppruna tækifæri til að tengjast myndlistarheiminum hér á landi. Opnunarávarp forseta má lesa hér.
Við sama tækifæri var einnig opnaður skúlptúrgarður í opnu almannarými við safnið. Garðurinn byggir á verkefni sem listakonan hóf sjálf á sínum tíma við heimili sitt í París en lauk aldrei við vegna veikinda. Í ávarpi Ásdísar Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, kom fram að garðurinn sé opið almannarými sem verði samkomustaður fyrir íbúa Kópavogs og gesti.