• Forseti við afhendingu fyrstu styrkja í Minningarsjóð Bryndísar Klöru, sem hún er verndari fyrir. Ljósmynd: Rúnar Kristmannsson.
Fréttir | 23. sep. 2024

Framlög í minningarsjóð

Forseti tekur á móti fyrstu framlögunum í Minningarsjóð Bryndísar Klöru Birgisdóttur. Sjóðurinn var stofnaður í september 2024 í nafni Bryndísar Klöru sem lést í kjölfar hnífaárásar á Menningarnótt í Reykjavík. Sjóðnum er ætlað að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi. Forseti er verndari sjóðsins.

Ríflega 8 milljónir króna voru lagðar inn á sjóðinn í dag, en peningurinn er afrakstur tveggja söfnunarátaka. Nemendur Salaskóla í Kópavogi, þar sem Bryndís Klara gekk í grunnskóla, efndu til áheitasöfnunar í minningu Bryndísar í tengslum við þátttöku nemenda í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Þannig söfnuðu nemendur alls tæplega 1,5 milljón króna.

Hitt framlagið í sjóðinn var úr sameiginlegu söfnunarátaki þriggja verslana, Krónunnar, Bónuss og Nettó, sem stóðu að sölu friðarkerta í minningu Bryndísar Klöru. Anna Björt Sigurðardóttir átti frumkvæði að sölunni og voru landsmenn hvattir til að kaupa kerti og tendra þau að kvöldi útfarardags Bryndísar Klöru, 13. september. Rúmar 6,9 milljónir króna söfnuðust með kertasölunni.

Í ávarpi sínu áréttaði forseti ákall til almennings um að gerast riddarar kærleikans með einhverjum hætti og þakkaði þeim sem svarað höfðu því kalli, meðal annars með því að leggja styrktarsjóðnum lið. „Ég efa ekki að þessir fjármunir muni koma að gagni í að bæta líðan ungs fólks sem er að mínu mati okkar brýnasta verkefni. Og ég þykist líka viss um að það hjálpaði ykkur að líða betur að finna þarna leið til að gera gagn og láta gott af ykkur leiða – saman."

KPMG fer með vörslu minningarsjóðsins og eru öll framlög sem berast lögð inn á reikning sjóðsins: 0515-14-171717, kennitala 430924-0600.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar