Fréttir | 27. apr. 2018

Íslensku þekkingarverðlaunin

Forseti afhendir Íslensku þekkingarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó í Reykjavík. Félag viðskipta- og hagfræðinga stendur að verðlaununum. Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2018 var horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi sitt. Dómnefnd tilnefndi fjögur fyrirtæki, Arion banka, HB Granda, Skagann 3X og Vísi. Síðastnefnda fyrirtækið hlaut verðlaunin að þessu sinni. Einnig var tilkynnt um viðskipta- eða hagfræðing ársins. Þann heiður hlaut Sigurður Hilmarsson hagfræðingur sem notið hefur mikillar velgengni í Bandaríkjunum með fyrirtækið The Icelandic Milk and Skyr Corporation sem hann stofnaði árið 2006 og framleiðslu þess, Siggi's skyr. Fyrr á þessu ári keypti franska fyrirtækið Lactalis fyrirtækið en Siggi's skyr er ennþá hrært og selt við miklar vinsældir vestra. Vísir og Sigurður fengu glæsilega verðlaunagripi sem Sæþór Örn Ásmundsson hannaði.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar