Fréttir | 22. júní 2018

Sjálfstæðishátíð í Eistlandi

Forseti og forsetafrú sækja hátíðahöld í Eistlandi í tilefni þess að öld er í ár liðin frá því að Eistar lýstu yfir sjálfstæði og stofnuðu lýðveldi. Fagnaðurinn fór fram í háskólaborginni Tartu og var mikið um dýrðir. Forsetar Finnlands, Georgíu, Lettlands og Póllands sátu sömuleiðis hátíðardaginn fyrir hönd sinna ríkja. Formleg dagskrá hófst með móttöku í hátíðarsal háskólans í Tartu og síðan var haldið í vísindagarðinn Ahhaa þar sem þjóðhöfðingjarnir ræddu við ungmenni og kynntu sér þetta athyglisverða fræðslusetur. Að því loknu var haldið í Þjóðminjasafn Eistlands sem er í nýjum og glæsilegum húsakynnum spölkorn frá Tartu. Safnið hefur unnið til verðlauna fyrir óhefðbundnar leiðir í miðlun menningararfs og sögu og er greinilega vel að þeim heiðri komið.
Að loknum hátíðarkvöldverði í boði Kersti Kaljulaid Eistlandsforseta fylgdust forsetahjón, föruneyti og aðrir gestir með söngvahátíðinni Gaudeamus. Háskólakórar, tónlistarfólk, dansarar og sviðslistamenn frá Eystrasaltslöndunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, leika listir sínar á hátíðinni sem stendur í þrjá daga að þessu sinni, 22.-24. júní. Við opnun hátíðarinnar á árbökkum Emajõgi í Tartu fluttu þjóðhöfðingjarnir sex ávörp og má lesa orð forseta Íslands hér. Síðan var flutt kantata Carls Orff, Carmina Burana, með flugeldum, ljósasýningu og leiklist.

Myndasafn frá öðrum og þriðja degi heimsóknarinnar.