Fréttir | 09. ágú. 2017

Heimsókn í Mosfellsbæ

Forseti og forsetafrú heimsækja Mosfellsbæ í tilefni af 30 ára afmæli bæjarins. Heimsóknin hófst í skógrækt Mosfellinga við Hamrahlíð þar sem bæjarstjórnin og bæjarstjóri tóku á móti forsetahjónum. Forseti gróðursetti við þetta tækifæri reynitré í virðingarskyni við starf skógræktarfólks Mosfellsbæjar. Næst var haldið að Hrísbrú þar sem sagt var frá fornleifauppgrefti sem þar hefur staðið um árabil; þá var haldið að Gljúfrasteini þar sem forstöðumaður Húss skáldsins og nokkrir afkomendur Halldórs Laxness tóku á móti gestunum. Í Dalsgarði kynntu forsetahjónin sér þá ræktun sem þar fer fram en eftir hádegi heimsóttu þau Krikaskóla og hlýddu á söng skólabarna. Næst var komið við á Eirhömrum þar sem forsetahjónin spjölluðu við eldri borgara og hlustuðu á söng þeirra og barna sem þangað komu í tilefni dagsins. Að því loknu lá leiðin að Syðri-Reykjum þar sem heimamenn sögðu frá hæsna- og kjúklingaeldi sínu, jarðhita og sögu staðarins. Í Álafosskvosinni var komið við hjá Páli Kristjánssyni hnífasmið, fræðst um starfsemi fyrri tíðar á Álafossi og heilsað upp á starfsfólk á Ásgarði. Nú var gengið af stað í átt að félagsheimilinu Hlégarði en á leiðinni rætt stutta stund við skáta sem hafa aðstöðu við Álafoss. Í Hlégarði var svo samkoma þar sem bæjarstjórn tilkynnti um sérstök verkefni sem samstaða er um að hefja í þágu bæjarbúa í tilefni afmælisins. Að loknum tónlistaratriðum flutti forseti ávarp, sem lesa má hér, og færði bænum afmælisgjöf.

Syrpa mynda sem teknar voru í heimsókninni.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar