Fréttir | 08. feb. 2019

Safnanótt. Opið hús á Bessastöðum

Í dag verður forsetasetrið að Bessastöðum opið almenningi sem liður í Vetrarhátíð og Safnanótt 2019. Gestum býðst að skoða Bessastaðastofu milli klukkan 19:00 og 22:00.
Auk hinna merku steinhúsa frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér sýnishorn gjafa, sem forseta hafa borist, og fornleifar sem veita innsýn í búsetu á Bessastöðum frá landnámstíð. Gestir munu geta skoðað Bessastaðastofu alla sem og móttökusal og bókhlöðu forsetasetursins. Þá mun fyrsti forsetabíllinn, Packard bifreið Sveins Björnssonar, standa í hlaði Bessastaða en bifreiðin er ríflega sjötug, árgerð 1942.
Starfsmenn embættis forseta verða til leiðsagnar auk þess sem nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands verða gestum til aðstoðar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar