Fréttir | 10. apr. 2019

Fundur með forseta Rússlands

Forseti á fund með Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Til fundarins var boðað í tengslum við þátttöku forseta í norðurslóðaráðstefnunni Arctic: A Territory of Dialogue sem haldin er í Sankti Pétursborg um þessar mundir. Á fundinum var rætt um málefni norðurslóða og væntanlega formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst í næsta mánuði og varir í tvö ár. Rússnesk stjórnvöld styðja áherslur Íslands á þeim vettvangi. Þá var rætt um viðskipti Íslands og Rússlands, framlag íslenskra fyrirtækja á sviði hátækni og hönnunar í vinnslu sjávarafurða og hönnun skipa í Rússlandi og leiðir til að greiða á ný fyrir vaxandi viðskiptum milli landanna.

Á fundinum var einnig rætt um framtíð Evrópuráðsins og setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þá minnti forseti á mikilvægi grundvallarmannréttinda um víða veröld, málfrelsi, trúfrelsi og ástfrelsi.

Fundinn sátu einnig Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og Sergei Shoigu varnarmálaráðherra.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar