Fréttir | 03. maí 2019

Síðari dagur í Reykjanesbæ

Forseti og forsetafrú heimsækja ýmsa staði í Reykjanesbæ á síðari degi opinberrar heimsóknar sinnar til sveitarfélagsins. Að morgni var nýsköpunarfyrirtækið Geosilica heimsótt en það framleiðir fæðubótarefni með mikilvægum steinefnum. Í Hæfingarstöðinni heilsuðu hjónin upp á starfsmenn og skjólstæðinga sem þar framleiða ýmsan varning og listgripi. Þá lá leiðin í Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, þar sem Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri gerði grein fyrir starfseminni og sagði frá námsbraut í gerð tölvuleikja sem Keilir er að hleypa af stokkunum; einnig sýndi Hjálmar gestunum flughermi sem þarna er notaður til kennslu. Í hádeginu heimsóttu forsetahjónin Háaleitisskóla, grunnskóla þar sem hlutfallslega margir nemendur eru af erlendu bergi brotnir, og fluttu nemendur skemmtiatriði þar, sungu og dönsuðu. Næst lá leiðin í Fjölsmiðjuna á Smiðjuvöllum þar sem rekinn er nytjamarkaður og starfsmenn gera upp gamla hluti af ýmsu tagi sem svo eru seldir. Rétt hjá Fjölsmiðjunni er Bardagahöllin þar sem kenndar eru glímuíþróttir og taekvondó og þar er Hnefaleikafélag Reykjaness líka með aðstöðu og komu forsetahjónin þar við og héldu loks að Nesvöllum þar sem Félag eldri borgara í Reykjanesbæ stóð fyrir samkomu. Á öllum þessum viðkomustöðum ræddu forsetahjón við gesti, starfsmenn og skjólstæðinga.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar