Fréttir | 18. maí 2019

Annar dagur í Manitoba

Forsetahjón halda áfram heimsókn sinni til Manitoba og heimsækja nokkra staði utan Winnipeg. Fyrst héldu þau á Víðines eða Willow Island og skoðuðu þar minnismerki um landnám fyrstu Íslendinganna í Manitoba. Þá var haldið til Gimli þar sem hjónin heimsóttu Betel, heimili fyrir aldraða, og ræddu við marga íbúa sem eiga íslenska forfeður. Einnig skoðuðu þau New Iceland Heritage Museum, minjasafn helgað landnámi og búsetu Vestur-Íslendinga á þessu svæði. Á sama stað þáðu hjónin hádegisverð í boði heimamanna og ræddu þar við gesti; en því næst var haldið til Riverton og skoðuð stytta af Sigtryggi Jónassyni sem kom fyrstur Íslendinga til Kanada á 19. öld. Sigtryggur kom til Manitoba árið 1872 og var farsæll forystumaður í byggðarlaginu. Þá skoðuðu forseti og forsetafrú Engimýri, hús sem áður var bóndabær og í reynd hálfgert félagsheimili í Íslendingabyggðinni, og hittu þar að máli fólk sem stendur fyrir umfangsmiklum viðgerðum á húsinu og varðveislu minja sem í því eru. Um kvöldið sátu hjónin hátíðarkvöldverð Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku og flutti forseti þar ávarp og afhenti Þjóðræknisfélaginu Fróni gjöf.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar