Fréttir | 13. júní 2019

Heimsókn forseta Þýskalands

Á síðari degi opinberrar heimsóknar sinnar til Íslands fóru Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, og Elke Büdenbender forsetafrú ásamt forseta Íslands, forsetafrú og fylgdarliði í ferð um Suðurland. Fyrst var komið við í Hellisheiðarvirkjun þar sem sagt var frá umhverfisvænni orkuframleiðslu Orku náttúrunnar, hreinsun koltvísýrings úr loftinu og hvernig hann er bundinn í basalt í iðrum jarðar. Þá var skoðuð eldfjallasýning á Hvolsvelli og gengið að Sólheimajökli þar sem gestirnir skoðuðu ummerki um hopun jökulsins. Að því loknu var haldið til Vestmannaeyja þar sem skoðuð var ný og umhverfisvæn varmadælustöð, farið um borð í Breka, togara Vinnslustöðvarinnar, og svo komið við á íþróttasvæði þar sem pæjumót í knattspyrnu stóð sem hæst. Heimsókninni til Vestmannaeyja lauk með gönguferð á Eldfell og móttöku í Eldheimum í boði Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar