Fréttir | 25. sep. 2019

Lokadagur á Grænlandi

Þriðji dagur heimsóknar forseta og forsetafrúar til Grænlands hófst með kynningarfundi og skoðunarferð í Loftslagsrannsóknastofnun Grænlands en þar starfa um 70 manns og fylgjast með þróun og áhrifum loftslagsbreytinga í landinu og á nærliggjandi hafsvæðum. Þá var haldið í Kofoed skólann þar sem þeir njóta aðstöðu og fá stuðning sem orðið hefur fótaskortur í lífinu, svo sem vegna fíkniefnanotkunar; og er markmiðið að kenna nemendum að standa á eigin fótum og auka hæfni þeirra til jákvæðrar þátttöku í samfélaginu. Þá lá leið forsetahjóna í höfuðstöðvar skipafélagsins Royal Arctic Line sem nú hefur hafið samstarf við Eimskip á Íslandi og stefnir að aukinni starfsemi þar sem nota á umskipunarstöðvar í Reykjavík og Árósum. Loks héldu forseti og forsetafrú í Grænlandsbanka og fræddust um starfsemi hans og þær horfur og tækifæri sem menn sjá í atvinnulífi landsins á komandi árum.

Myndasyrpa úr heimsókn forsetahjóna til Grænlands.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar