Fréttir | 26. okt. 2019

„Komdu með kalda fingur þína“

Forseti flytur ávarp á fræðslufundi og tónlistarhátíð Félags um sögu Bessastaðaskóla. Viðburðurinn var í Bessastaðakirkju og bar yfirskriftina „Komdu með kalda fingur þína“, með vísun í þekkt vísuorð í kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, rektors Bessastaðaskóla, um Kristínu dóttur þeirra hjóna, hans og Helgu Benediktsdóttur Gröndal. Á fundinum flutti Soffía Auður Birgisdóttir fyrirlestur um dætur þeirra, stúlkur í Álftanesskóla sungu lög við nokkrar vísur Sveinbjarnar og Guðrún Birgisdóttir lék einleik á flautu. Í máli sínu fjallaði forseti m.a. um þær hugmyndir sem uppi hafa verið um að færa Bessastaðakirkju nær upprunalegu horfi, möguleika í þeim efnum og álitamál. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður, er nýr formaður Félags um sögu Bessastaðaskóla.

 

 

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar