Fréttir | 05. mars 2020

Lok opinberrar heimsóknar

Að loknum fundum með forseta Póllands á fyrsta degi opinberrar heimsóknar forseta Íslands og forsetafrúar til Póllands lagði forseti blómsveig að minnismerki óþekkta hermannsins í Varsjá, heimsótti pólska þingið og ávarpaði málstofu á vegum Evrópska efnahagssvæðisins um fjármögnun umhverfisvænna framkvæmda. Forsetafrúin heimsótti heyrnarsetur með pólsku forsetafrúnni og ávarpaði fund pólskra kvenna í viðskiptalífinu. Deginum lauk svo með hátíðarkvöldverði í forsetahöllinni.

Á öðrum degi heimsóknarinnar flutti forseti fyrirlestra hjá Lýðræðis- og mennréttindastofnun ÖSE og hjá Varsjárháskóla en frú Eliza átti fund með fulltrúum þýðenda- og rithöfundasamtaka. Um hádegisbil var svo haldið til Gdańsk-borgar við Eystrasalt og þar hófst dagskráin með því að forsetahjónin lögðu blómsveig að minnismerki um þá sem féllu í mótmælaaðgerðum árið 1970. Svo átti forseti óformlegan fund með ríkisstjóra Pommern og annan með borgarstjóra Gdańsk og forsetahjónin skoðuðu safn til minningar um árangursríka lýðræðisbaráttu samtakanna Samstöðu sem áttu rætur í Gdańsk. Í lok dags buðu forsetahjón til móttöku í Artúrshirð, aldagamalli kauphöll í miðborginni.

Á þriðja degi heimsóknarinnar hélt forseti í kynnisferð um hafnarsvæðið með nýju hafrannsóknarskipi Gdańsk-háskóla og heimsótti kæligeymslu við höfnina og skiparannsóknastöð auk þess sem hann ávarpaði málþing um samstarfstækifæri Íslands og Póllands á sviði skipahönnunar og matvinnslutækni. Einnig kom forseti á fund rektora Háskóla Íslands og Háskólans í Gdańsk ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Forsetafrúin átti hins vegar fund í Shakespeare leikhúsinu í Gdańsk, m.a. með fulltrúum innflytjenda og Jafnréttisráðs. Heimsókninni til Póllands lauk með því að forsetahjónin skoðuðu safn um heimsstyrjöldina síðari.

Myndasyrpa frá opinberri heimsókn forseta Íslands og frú Elizu til Póllands.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar