Fréttir | 12. mars 2020

Áhrif kórónuveirunnar

Með degi hverjum aukast áhrif kórónuveirunnar á íslenskt samfélag. Aðgerðir sem miða að því að verja líf og heilsu fólks verða alltaf í fyrirrúmi. Þá er einkum horft til þess að starfslið heilbrigðiskerfisins verði áfram í stakk búið til að hjúkra þeim sem kunna að veikjast mest og þurfa á mestri aðhlynningu að halda.

Síðustu daga hefur fjölmörgum viðburðum, sem forseta var boðið á og hann hugðist sækja, verið frestað eða aflýst. Augljóst er að sú verður áfram raunin. Sama gildir um fyrirhugaðar utanlandsferðir. Í einhverjum tilfellum koma fjarfundir í stað viðburða.

Leiðbeiningar og tilmæli landlæknis, heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda um viðbrögð vegna kórónuveirunnar má meðal annars sjá hér: www.landlaeknir.is. Einsýnt er að viðbrögð mótast og breytast eftir aðstæðum. Mikið mæðir nú á öllu starfsliði í heilbrigðisþjónustu og á það þakkir skildar fyrir sinn atbeina. Brýnt er að almenningur fylgist vel með þróun mála, leggi sitt af mörkum og láti ótta ekki ráða för. Eining og stilling er til góðs þegar vanda ber að höndum.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar