Fréttir | 25. nóv. 2020

Forseti Litháens

Forseti á fjarfund með Gitanas Nausėda, forseta Litháens. Rætt var um áhrif farsóttarinnar á líf, heilsu og efnahag fólks hér á landi og ytra. Smitum hefur fjölgað snarlega í Litháen að undanförnu. Forseti nefndi að nú eru nær 6% íbúa Íslands af litháískum uppruna og faraldurinn hafi valdið því að ferðalög milli landa liggi nú víða niðri enda verði að varast að smit berist óheft milli landa. Báðir forsetarnir minntust á þær vonir sem nú eru bundnar við bóluefni og því sé ástæða til hóflegrar bjartsýni. Þá var rætt um mikilvægi alþjóðasamstarfs, ekki síst á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja. Nausėda nefndi jafnframt atbeina litháískra stjórnvalda til stuðnings lýðræðisöflum í Belarús (Hvíta-Rússlandi).

Í ágúst á næsta ári verða 30 ár liðin frá því að Litháen, Lettland og Eistland endurheimtu sjálfstæði sitt eftir áratuga ok innan Sovétríkjanna. Þá tók Ísland upp stjórnmálasamband við löndin þrjú, fyrst ríkja á Vesturlöndum. Forsetarnir ræddu þessi tímamót og leiðir til að minnast þeirra þegar þar að kemur.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar