• Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, stjórnarformaður Almannaróms, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og viðskiptaráðherra og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms ásamt forseta og Scott Guthrie varaforseta hjá Microsoft.
Fréttir | 20. maí 2022

Microsoft

Forseti og íslensk sendinefnd funda með Scott Guthrie, varaforseta Microsoft Cloud og AI Group, í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Seattle í Bandaríkjunum. Á fundinum þakkaði forseti Guthrie sérstaklega fyrir þá rækt sem Microsoft hefur lagt við íslensku í lausnum sínum og gott samstarf við Almannaróm og íslenskt máltæknisamfélag. Guthrie sagði frá nýjustu framförum í máltæknigögnum Microsoft, sem auðveldi notkun íslenskrar tungu í lausnum fyrirtækisins.

Á fundinum kynntu fulltrúar Microsoft verkefnið Gervigreind í þágu menningararfs (AI for Cultural Heritage) til marks um þá áherslu sem fyrirtækið leggi á fjölbreytileika. Guthrie sagði það vera markmið Microsoft að heimsbyggðin öll geti átt samskipti óháð tungumálum, sem endurspeglist í samstarfi fyrirtækisins við Almannaróm og íslenskt máltæknisamfélag.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms ræddi á fundinum um möguleika á auknu samstarfi, byggðu á máltækni og gervigreind, þar sem lögð yrði áhersla á nýsköpun, aukna tæknifærni og jafnari kynjahlutföll í tæknigreinum.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar