• Ljósmynd/Birgir Ísleifur
  • Ljósmynd/Birgir Ísleifur
  • Ljósmynd/Birgir Ísleifur
  • Ljósmynd/Birgir Ísleifur
  • Ljósmynd/Birgir Ísleifur
Fréttir | 20. mars 2023

Gervigreind

Forseti flytur opnunarávarp á kynningarfundinum „Framtíðin svarar á Íslensku“ í Grósku í Reykjavík. Rætt var um þá áfanga sem náðst hafa í íslenskri máltækni og framtíð tungumálsins samhliða þróun gervigreindar. Forseti sagði frá för íslenskrar sendinefndar sem hann leiddi til Bandaríkjanna vorið 2022. Þar var fundað með forsvarsmönnum tæknifyrirtækja, ásamt menningar- og viðskiptaráðherra og sendinefnd íslenskra sérfræðinga á sviði máltækni. Ferðin markaði upphafið að samstarfi íslenskra máltæknisérfræðinga hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Miðeind við bandaríska nýsköpunarfyrirtækið OpenAI. Afrakstur þess samstarfs er innleiðing íslenskrar tungu í framþróun gervigreindarmállíkansins GPT. Tugir sjálfboðaliða hafa unnið að því síðustu vikur að þjálfa nýjustu útgáfuna mállíkansins í því að svara betur á íslensku.

Forseti lagði í máli sínu áherslu á að tækniframfarir á sviði gervigreindar verði að styrkja þá sjálfsögðu viðleitni að efla ólík tungumál heimsins og viðhalda fjölbreytni í samfélagi þjóða. Á fundinum tóku einnig til máls Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Þá tóku þátt í pallborðsumræðum tveir fulltrúar OpenAI, þær Anna Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar, og Angela Jiang, vörustjóri hjá OpenAI. Umræðustjóri var Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms

Fyrr um daginn tók forseti á móti sendinefnd OpenAi á Bessastöðum. Þar ræddi forseti einnig við fulltrúa Maóra frá Nýja-Sjálandi. Þeir komu hingað til lands til að kynna sér árangur íslenskrar máltæknistefnu og hvort það fordæmi geti nýst við verndun maórískrar tungu.

Pistill forseta um ChatGPT

Upptöku frá kynningarfundinum Framtíðin svarar á íslensku má sjá hér:

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar