Forsetahjón tóku þátt í afmælishátíð Akurskóla í Innri Njarðvík. Þau heimsóttu einnig Háaleitisskóla á Ásbrú sem er einn af handhöfum Íslensku menntaverðlaunanna 2025.
Akurskóli, sem er elsti skólinn í Innri Njarðvík, var vígður 9. nóvember 2005 og fagnar því 20 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni var efnt til afmælishátíðar fyrir nemendur og foreldra í íþróttasal skólans. Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri bauð gesti velkomna en í kjölfarið ávarpaði forseti samkomuna. Hún ræddi meðal annars um mikilvægi vináttunnar fyrir skólabraginn og árangur nemenda. Einnig skemmti tónlistartvíeykið VÆB við þetta tækifæri.
Í sömu ferð heilsuðu forsetahjón upp á nemendur og kennara í Háaleitisskóla. Fyrr í þessari viku hlaut starfsfólk skólans hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna. Tók Unnar Stefán Sigurðsson skólastjóri við þeim á Bessastöðum. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Í skólanum eru sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna og í skólanum eru töluð um 30 tungumál. Í Háaleitisskóla hefur tekist að skapa einstaklega jákvæða skólamenningu, m.a. með því að líta á fjölmenninguna sem styrk skólans.“ Í heimsókn sinni kynntu forsetahjón sér meðal annars svonefnt vellíðunarver sem ætlað er nemendum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.