Forsetahjón voru heiðursgestir á árlegri aðventuhátíð Bústaðakirkju en þess var um leið minnst að kirkjan var vígð fyrsta sunnudag í aðventu árið 1971. Á dagskrá var fjölbreyttur tónlistarflutningur og lesið upp úr ritningunni, auk þess sem forseti og formaður sóknarnefndar kirkjunnar, Þórður Sigurðsson, fluttu ávörp.
Í hátíðarávarpi sínu vék forseti meðal annars að byggingarsögu kirkjunnar sem teiknuð var af Helga Hjálmarssyni. Hún rifjaði upp að í frétt af vígslunni kom fram að lögun Bústaðakirkju átti að minna á fisk, hið forna tákn kristinnar kirkju, en líka að byggingin væri hugsuð eins og opinn faðmur. Síðar í ávarpi sínu sagði forseti:
„Guðsþjónustur og samverustundir eins og þessi aðventuhátíð eru dýrmætar. Við njótum hér saman söngs og félagsskapar, tíma án síma, í auðmýkt gagnvart æðri mætti. Slíkar stundir gefa okkur bæði tóm og tilefni til að trúa á hið góða og finna að hvert og eitt okkar skiptir máli. Mig langar til að þakka ykkur í Bústaðakirkju og Fossvogssókn fyrir að vera hér til staðar með opinn faðminn.“
Ávarp forseta er aðgengilegt á vef embættisins.