• Þetta er bara prufupistill #1
  • Þetta er bara random mynd
  • Prufa
Fréttir | 16. nóv. 2021

Fréttapistill frá forseta Íslands TEST 1

Nýliðin vika var annasöm og einkenndist meðal annars af erlendum gestakomum og
stærri viðburðum en tíðkast hafa um langa hríð. Segja má að þetta sé til vitnis um að
við séum að losna úr viðjum veirunnar. Við getum nú haldið hér viðburði og komið
saman hömlulaust eða því sem næst, þótt enn sé sjálfsagt að sinna eigin sóttvörnum
og sýna aðgát. Að sama skapi er brýnt að nýta áfram þann lærdóm sem við drógum af
heimsfaraldrinum, leitast við að sýna ráðstefnur og aðra viðburði einnig á netinu
þannig að fólk geti notið þeirra annars staðar og komast hjá því að leggjast í tíma- og
orkufrek ferðalög til að sitja einn fund eða flytja eitt erindi.


Knattspyrnukappi frá Liverpool


Síðastliðinn sunnudag tók ég á móti nokkrum fulltrúum Liverpool-klúbbsins á Íslandi
og knattspyrnukappanum Steve McManaman. Hann var heiðursgestur á árshátíð
klúbbsins sem hefur gjarnan látið gott af sér leiða á sviði góðgerðarmála.
McManaman kom hingað til lands með konu sinni, lögfræðingnum og
lagakennaranum Victoria Edwards, og börnum þeirra þremur, Ella, Lara og Lucas.


Sendiherra Frakklands
Á mánudaginn var tók ég á móti nýjum sendiherra Frakklands á Íslandi, Sophie
Laszlo. Við ræddum samskipti Íslands og Frakklands í áranna rás, og sameiginlega
sýn stjórnvalda í löndunum tveimur í mikilvægum málum. Síðan tókum við hjónin á
móti embættismönnum og öðrum sem eiga í samskiptum við Frakkland.
Rannsóknaráð Grænlands
Síðastliðinn þriðjudag fékk ég í heimsókn hingað til Bessastaða félaga í
Rannsóknaráði Grænlands (Ilisimatusarnermik Siunnersuisoqatigiit, Grønlands
Forskningsråd). Á fundinum voru einnig fulltrúar Rannís, Ágúst Hjörtur Ingþórsson,
Egill Þór Níelsson og Þorsteinn Gunnarsson. Liðsmenn ráðsins heimsóttu stofnanir
og háskóla hér á landi með samstarf í huga og sóttu jafnframt ráðstefnuna Hringborð
Norðurslóða. Við ræddum mikilvægi þess að Íslendingar og Grænlendingar auki
samstarf sitt á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar, ekki síst á sviði
sjálfbærrar nýtingar auðlinda sem þjónar hagsmunum heimamanna vestra.
Friðrik krónprins af Danmörku
Síðar þennan dag kom Friðrik krónprins af Danmörku í stutta heimsókn hingað til
lands og kynnti sér grænar lausnir í orkumálum ásamt sendinefnd frá Dansk Industri,
samtökum iðnaðarins þar ytra. Krónprins sat boð okkar hjóna á Bessastöðum ásamt
föruneyti sínu og fulltrúum íslenskra fyrirtækja og stofnana sem hann heimsótti. Við
Eliza hittum Friðrik krónprins og Mary krónprinsessu í Kaupmannahöfn fyrir
skemmstu þegar við sóttum World Pride þar, alþjóðahátíð hinsegin samfélagsins.
Borðræðu mína í kvöldverðinum má lesa hér:
https://www.forseti.is/.../frederik_kronprins_bordraeda.... Morguninn eftir sóttum
2
við krónprinsinn svo málþing um grænar lausnir í orkumálum í húsakynnum
Grænvangs í hugmyndahúsinu Grósku í Reykjavík. Krónprins hélt síðan í
Hellisheiðarvirkjun og hittumst við á ný um borð í danska varðkipinu Triton í
Reykjavíkurhöfn. Niels Pind skipherra fræddi okkur þar um eftirlitsstörf þess á
norðurslóðum og gaman var að heyra hve mjög hann rómaði liðsmenn
Landhelgisgæslu Íslands og allt samstarf við Gæsluna.
Ferðamálaráðstefna
Fimmtudaginn 14. október flutti ég opnunarávarp á ferðamálaráðstefnunni What
Works Tourism 2021 í Reykjanesbæ. Síðar um daginn flutti Eliza einnig erindi þar. Þá
var ég kominn í Hörpu á setningarathöfn Hringborðs Norðurslóða sem Ólafur Ragnar
Grímsson á veg og vanda af.


The Arctic Circle


Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, var meðal gesta á Hringborði
Norðurslóða. Föstudaginn 15. október átti ég hádegisverðarfund með henni og var
fróðlegt og uppörvandi að heyra um framtíðarsýn hennar fyrir hönd þjóðar sinnar.
Skotar eru grannþjóð okkar og er mikilvægt að efla við þá samskipti á ýmsum sviðum.
Fleiri Hringborðsgestir komu til fundar við mig þennan dag. Virginijus Sinkevičius er
framkvæmdastjóri útvegs- og umhverfismála hjá ESB og ræddum við orkustefnu
ESB, sjónarmið sambandsins í málefnum norðurslóða og bláa hagkerfið, samheiti yfir
sjálfbærni og umhverfissjónarmið við nýtingu auðlinda hafsins. Fund okkar sátu
einnig Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, og embættismenn í
föruneyti Sinkevičius. Þá átti ég fund með öldungadeildarþingmönnunum Lisu
Murkowski frá Alaska og Sheldon Whitehouse frá Rhode Island. Við ræddum stefnu
bandarískra stjórnvalda í umhverfismálum og væntanlega loftslagsráðstefnu
Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í Skotlandi.
Christina Lamb
Síðastliðið föstudagskvöld hlotnaðist okkur Elizu sá heiður að taka á móti merkum
gesti sem sinnt hefur því nauðsynlega en sára hlutverki að skrá sögur kvenna sem
hafa mátt þola hrikalegar þjáningar í stríðsátökum víða um heim. Christina Lamb
heitir hún, ritstjóri erlendra frétta hjá The Sunday Times og margverðlaunaður
rithöfundur. Hún tók þátt í málþingi UN Women í Veröld – húsi Vigdísar í tilefni af
útgáfu nýjustu bókar hennar, Líkamar okkar, þeirra vígvöllur, sem afhjúpar hvernig
nauðgunum er kerfisbundið beitt sem stríðsvopni í nútímaátökum.
Viðtal við kanadísku sjónvarpsstöðina CBC
Síðastliðinn föstudag ræddum við Eliza við fulltrúa kanadísku sjónvarpsstöðvarinnar
CBC um loftslagsmál og sjónarmið íslenskra stjórnvalda í þeim efnum. Eliza sagði
einnig frá reynslu sinni af því að flytja hingað til Íslands og til Bessastaða.
Landsþing Kvenfélagasambands Íslands
Síðastliðið föstudagskvöld sátum við Eliza hátíðarsamkomu Kvenfélagasambands
Íslands í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Sambandið hélt um nýliðna helgi
landsþing sitt í Borgarnesi og var viðburðurinn hluti þess. Ég flutti ávarp og þakkaði
kvenfélagskonum um land allt þeirra drjúgu verk í þágu samfélagsins, störf í
heimabyggð og framlög til góðgerðarmála sem muni svo sannarlega um. Svo nutum
við hjónin leiðsagnar um sögusýningu og Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri. Það
safn er heldur betur skemmtilegt.
Mýrin, barna- og unglingabókmenntahátíð
Síðdegis á laugardag tók ég á móti gestum Mýrarinnar, alþjóðlegrar barna- og
unglingabókmenntahátíðar sem haldin var í Norræna húsinu í Reykjavík. Fjöldi
viðburða var á þeirri hátíð, fyrirlestrar og samræður, upplestrar og sögustundir. Þau,
sem tóku þátt í hátíðinni, komu frá ýmsum löndum utan Íslands, einkum þó annars
staðar frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum þremur. Mýrin, sem er haldin
annað hvert ár, átti að fara fram í fyrra en frestaðist vegna heimsfaraldursins.
Er þá flest upp talið af opinberum viðburðum nýliðinnar viku. Ég óska ykkur öllum
velfarnaðar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar