Veftré Print page English

14. ágúst 2014

Háskólinn á Bifröst. Dreifbýli og Norðurslóðir

Forseti á fund með Vilhjálmi Egilssyni, rektor Háskólans á Bifröst, um samspil menntunar og dreifbýlisþróunar, vaxandi áhuga byggðarlaga á Norðurslóðum á samspili upplýsingatækni og menntunar í þágu atvinnulífs heimabyggðar sem og reynslu Háskólans á Bifröst á þessu sviði. Einnig var fjallað um hvernig Hringborð Norðurslóða getur nýst íslenskum háskólum og rannsóknarstofnunum.

14. ágúst 2014

Græna verkefnið. Háskólanemar

Forseti tekur á móti háskólanemendum frá Bandaríkjunum, Evrópu og Mið-Austurlöndum sem taka þátt í Græna verkefninu, The Green Program, en það er skipulagt af Háskólanum í Reykjavík og fleiri íslenskum aðilum. Nemendur kynna sér árangur af nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi og ræddi forseti ýmsa þætti hennar og framtíðarhorfur, m.a. með tilliti til virkjana, húshitunar, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.

13. ágúst 2014

Norræn steinsteypuráðstefna

Forseti setur norræna ráðstefnu um steinsteypurannsóknir, sem haldin er í Hörpu, og standa m.a. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskólinn í Reykjavík að henni. Á ráðstefnunni koma saman þrír norrænir vettvangar á þessu sviði og er sérstök áhersla lögð á þróun umhverfisvænnar steinsteypu. Ávarp forseta.

12. ágúst 2014

Auðlindir hafsins

Forseti á fund með Árna M. Mathiesen, aðstoðarframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, og yfirmanni málefna hafsins hjá stofnuninni, um þróun alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði, einkum með tilliti til opnunar nýrra hafsvæða á Norðurslóðum og nýtingar fiskistofna þar. Einnig var rætt hvernig reynsla Íslendinga í skipulagningu veiða og vinnslu og fullnýtingu afla gæti gagnast öðrum þjóðum.

12. ágúst 2014

Norðurskautsráðið

Forseti á fund með Magnúsi Jóhannessyni, framkvæmdastjóra Norðurskautsráðsins, um þróun samstarfs á Norðurslóðum, uppbyggingu aðalskrifstofu Norðurskautsráðsins og þátttöku aðildarríkja í vísindasamstarfi og vinnuhópum. Einnig var fjallað um hlutverk Arctic Circle í að efla samstarf og samræður til stuðnings ábyrgri stefnumótun á Norðurslóðum sem og tækifæri Íslands í þessum efnum.

11. ágúst 2014

Sendiherra Japans

Forseti á fund með nýjum sendiherra Japans frú Mitsuko Shino, sem afhenti trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Hún er fyrsti sendiherra Japans með búsetu á Íslandi. Forseti fagnaði þessum nýja áfanga í samstarfi þjóðanna sem styrkja myndi til muna tækifæri til aukinnar samvinnu á grundvelli þess góða árangurs sem þjóðirnar hefðu í áratugi náð á sviði gagnkvæmra viðskipta. Japan hefði verið mikilvægur markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og auk innflutnings á bílum hefði vélakostur frá japönskum fyrirtækjum átt veigamikla hlutdeild í nýtingu jarðvarma á Íslandi. Þá var fjallað um mikilvægi Norðurslóða en Japan leggur ríka áherslu á þátttöku í samstarfi þjóða á því svæði og mun m.a. kynna sérstaklega áherslur sínar og framtíðarsýn í norðurslóðamálum á þingi Arctic Circle sem haldið verður á Íslandi í haust. Að fundinum loknum var móttaka fyrir fulltrúa fjölmargra aðila á sviði vísinda, menningar og viðskipta sem átt hafa samstarf við Japan. Mynd

Meira
11. ágúst 2014

Réttarríki og lagaþróun í Rússlandi

Forseti á fund með sendinefnd frá Rússlandi sem skipuð er fulltrúum Lögfræðingafélags Rússlands og dómurum, sem og fulltrúum embætta saksóknara og annarra réttarfarsstofnana og laganefnda rússneska þingsins. Rætt var um þróun réttarríkisins á Vesturlöndum, þróun þrígreiningar ríkisvalds á Íslandi á 20. öld sem og skipan mannréttinda og grundvallarreglna um sjálfstæði dómstóla og lagaleg réttindi almennings. Þá var einnig rætt um fjölda dómstiga, mikilvægi sjálfstæðs dómsmálaráðuneytis og hlutverk stjórnarskrár í þróun lýðræðis, mannréttinda og réttarfars í ólíkum löndum. Sendinefndin heimsækir einnig innanríkisráðuneytið, Embætti ríkissaksóknara, Héraðsdóm Reykjavíkur og Alþingi og á fund með fulltrúum Lögfræðingafélags Íslands.

10. ágúst 2014

Minnisvarði um Guðmund Ólafsson á Fitjum

Forseti afhjúpar minnisvarða um Guðmund Ólafsson á Fitjum í Skorradal en hann var um miðja nítjándu öld meðal frumkvöðla í íslenskum landbúnaði, alþingismaður Borgfirðinga og samverkamaður Jóns Sigurðssonar. Að lokinni afhjúpun flutti forseti ávarp þar sem hann minntist frumherja íslenskrar endurreisnar og sjálfstæðisbaráttu, ítrekaði mikilvægi þess að efla skilning á árangursríkri vegferð þjóðarinnar til framfara og sjálfstæðis og minntist fólksins sem á sínum tíma hefði búið í Skorradal en þeim hefði hann kynnst í frásögnum föður síns sem ólst upp í Bakkakoti. Að lokinni athöfn var samkoma í skemmunni, tónlistarflutningur og erindi um Guðmund Ólafsson og opnun á söguvefnum framdalur.is sem tengdur er stofnun Framdalsfélagsins.

09. ágúst 2014

Íslenski geitastofninn

Forseti heimsækir Háafell í Hvítársíðu og skoðar íslensku geiturnar sem þar hafa verið ræktaðar en landnámsgeitin er talin hafa borist hingað með landnámsmönnum frá Noregi og var fyrir nokkrum áratugum komin nánast í útrýmingarhættu. 

08. ágúst 2014

Umhverfissinnar

Forseti ræðir við hóp umhverfissinna frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu um nýtingu hreinnar orku, loftslagsbreytingar, nýjar aðferðir við byggingu borga og híbýla sem og þróun Norðurslóða. Hópnum veitir forystu William McDonough arkitekt, höfundur Cradle-to-Cradle sýnarinnar í byggingarlist nútímans.

07. ágúst 2014

Jarðhitavæðing í Kína

Forseti á fund með Hauki Harðarsyni, stjórnanda OrkaEnergy, og Fanglu Wang, fulltrúa Citic fjárfestingasjóðsins, um jarðhitavæðingu í Kína, bæði í þágu hitaveitna í borgum og til ræktunar í gróðurhúsum. Samvinna OrkaEnergy og Sinopec hefur opnað nýjar leiðir til að draga úr mengun og bæta fæðuframleiðslu með öflugri nýtingu jarðhita.

06. ágúst 2014

Sendiherra Noregs

Forseti á fund með sendiherra Noregs á Íslandi sem senn lætur af störfum. Rætt var um aukna samvinnu norrænna þjóða, sérstaklega Íslands og Noregs, m.a. með tilliti til vaxandi mikilvægis Norðurslóða. Þá var einnig fjallað um sameiginlega sögu og menningararf og nýleg hátíðahöld í Reykholti og í Dölum.


06.08.2014  

Samvinna Íslands og Indlands

28.07.2014  

Jarðfræðinemar frá Utah

28.07.2014  

Forseti Stórþingsins

27.07.2014  

Íslandsmót í hestaíþróttum

26.07.2014  

Sýning um ferðir Kerguelens til Íslands

26.07.2014  

Vígsla trébryggjunnar við Franska spítalann

26.07.2014  

Endurgerð frönsku húsanna á Fáskrúðsfirði

26.07.2014  

Blessun Litlu kapellunnar á Fáskrúðsfirði

26.07.2014  

Minningarathöfn í Franska grafreitnum

25.07.2014  

Tónleikar í Fáskrúðsfjarðarkirkju

25.07.2014  

Jarðarför Vilhjálms Hjálmarssonar

24.07.2014  

Íslenskir hestar. Ljósmyndabók

24.07.2014  

Finnland og Norðurslóðir

23.07.2014  

Landsmót skáta

23.07.2014  

Ísland og Bandaríkin

22.07.2014  

Atvinnulíf á Norðurslóðum

22.07.2014  

Sendiherra Rússlands

21.07.2014  

Indland. Norðurslóðir. Himalajasvæðið

21.07.2014  

Samúðarkveðjur

19.07.2014  

Sendiherra Bretlands

16.07.2014  

Heimskautastofnun Kína. Vestnorrænt samstarf

14.07.2014  

Sjávarútvegur og Norðurslóðir

14.07.2014  

Hafrannsóknir og Norðurslóðir

12.07.2014  

Alþjóðleg myndlistarsýning á Djúpavogi

12.07.2014  

Arfleifð – hönnun