Fréttapistill | 30. jan. 2022

Bókmenntaverðlaunin afhent

Í nýliðinni viku bar það helst til tíðinda í mínu embætti að Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt hér á Bessastöðum. Ég óska þeim, sem voru tilnefnd til verðlauna og hlutu þau, aftur til hamingju með verðskuldaðan heiður.

Því miður féll sá skuggi á viðburðinn að misbrestur varð á því að reglum um grímuskyldu væri fylgt. Eftir að gestir höfðu fengið sér sæti í salnum var grímunotkunar ekki krafist, en það samræmdist ekki gildandi sóttvarnarreglum. Ég ber ábyrgð á þeim misskilningi. Sömuleiðis var það misráðið af mér að fallast á undanþágu til að halda slíkan viðburð á Bessastöðum.

Frá upphafi faraldursins fyrir um tveimur árum höfum við hér einsett okkur að fylgja öllum tilmælum í hvívetna, fellt niður viðburði eða hagað þeim með breyttum hætti, og aldrei leitað undanþága í þeim efnum. Sá eða sú, sem gegnir embætti forseta Íslands, á að ganga á undan með góðu fordæmi. Nú fór svo að það sem helst hann varast vann, varð að koma yfir hann, eins og sálmaskáldið orti, eða sjálfsmark á lokakaflanum svo að notuð sé samlíking úr heimi boltaíþrótta. Ég biðst innilega afsökunar á þessum leiðu mistökum.

Nú hafa sóttvarnarreglur verið rýmkaðar og stendur til að aflétta þeim áfram í skrefum. Gangi allt eftir getum við verið vongóð um að gangur samfélagsins verði orðinn með eðlilegum hætti með vorinu. Munum þó að faraldrinum er ekki lokið enn, sinnum eigin sóttvörnum og hugum vel að þeim sem eru viðkvæm fyrir smiti. Leiðin fram á við felst sem fyrr í samstöðu og samheldni. Ég sendi öllum, sem glíma við veiruna og sæta einangrun eða sóttkví, baráttu- og batakveðjur.

Enn er mér ofarlega í huga, eins og öðrum landsmönnum, frábært gengi strákanna okkar á Evrópumótinu í handbolta. Nú hefur Viktor Gísli Hallgrímsson verið valinn í úrvalslið mótsins og Ómar Ingi Magnússon varð markahæstur allra leikmanna. Ég óska þeim, Guðmundi þjálfara og liðinu öllu innilega til hamingju með glæstan árangur sem létti okkur svo sannarlega lund í skammdeginu.

Í lokin minni ég enn á G-vítamín Geðhjálpar á www.gvitamin.is. Geðorð dagsins í dag er einfalt en satt: Farðu að sofa sátt(ur). Ég minni líka á hreyfingarátak Ungmennafélags Íslands og fleiri, Slöbbum saman. Myndin sem hér fylgir er frá stuttum skokktúr í dag í hríðarhraglanda á Álftanesi. Hreyfing er svo holl fyrir líkama og sál.

Birtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar