Fréttapistill | 17. okt. 2022

Gestkvæmt á Bessastöðum

Talsvert var um erlendar gestakomur á Bessastöðum í vikunni sem leið. Fyrstan ber að nefna Hákon, krónprins Noregs. Við gengum meðal annars að gosstöðvunum við Fagradalsfjall í mikilli veðurblíðu og nutum leiðsagnar Kristínar Jónsdóttur eldfjallafræðings. Uppi á Langa-Hrygg dró krónprinsinn indælis norskt súkkulaði upp úr bakpoka sínum og deildi með okkur ferðafélögunum. Mér er óhætt að segja að Hákoni fannst mikið til staðhátta koma þarna.

Í vikunni tók ég líka á móti tveimur þjóðhöfðingjum. Mary Simon, landstjóri Kanada, kom til fundar á Bessastöðum og í kjölfarið buðum við Eliza henni til hádegisverðar, ásamt eiginmanni hennar, Whit Fraser, og föruneyti. Forseti Eistlands, Alar Karis, var einnig hér á landi, í annað sinn á þessu ári. Við funduðum ásamt sendiherrum beggja ríkja um áframhaldandi samstarf landanna og stuðning við Úkraínu. Meðal annarra erlendra gesta í vikunni má nefna fulltrúa Miðstöðvar norðurslóða við Harvard Kennedy School í Bandaríkjunum, sem ég ræddi við um stuðning við alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum. Þá naut ég þeirrar ánægju að bjóða til móttöku til heiðurs suður-afríska ljósmyndaranum Zaneli Muholi, en sýning á verkum háns var opnuð í Listasafni Íslands um helgina.

Nokkrar ráðstefnur og viðburði sótti ég innanlands. Á mánudaginn var flutti ég opnunarávarp á árlegri friðarráðstefnu Höfða friðarseturs. Þar var sjónum beint að því hvernig endurhugsa megi friðarferla og friðaruppbyggingu en sú umræða hefur sjaldan átt eins brýnt erindi og nú. Sama dag flutti ég ávarp og tók þátt í dagskrá Alþjóðageðheilbrigðisdagsins sem haldinn er um víða veröld 10. október. Þá flutti ég opnunarávarp á sýningunni Íslenskur landbúnaður 2022 í Laugardalshöll og minnti þar á mikilvægi tækninýjunga, sjálfbærni og nýsköpunar í íslenskum landbúnaði.

Stundum þurfa skipulagðir fundir að víkja vegna atburða sem eiga sér skamman fyrirvara. Það gerðist í vikubyrjun þegar ég brá mér af landi brott og flaug til Portúgals ásamt fríðu föruneyti stuðningsmanna íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Úrslitin voru sár en liðið stóð sig vel og ánægjulegt að svo mörg sáu sér fært að fylgja þeim út og hvetja stelpurnar okkar til dáða. Það kemur leikur eftir þennan leik og aldrei dugar að gefast upp. Áfram Ísland!

Pistillinn pirtist fyrst á Facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar