Fréttapistill | 30. maí 2023

Á æskuslóðum Elizu

Við Eliza erum þakklát fyrir einstaklega góðar móttökur á fyrsta degi opinberrar heimsóknar okkar til Kanada í gær. Þetta er fyrsta ríkisheimsókn Íslands til Kanada í 23 ár, en jafnframt fyrsta ríkisheimsóknin sem kanadísk stjórnvöld bjóða til að loknum heimsfaraldri og yfirbragðið allt hið hátíðlegasta. Auk þess erum við hér á æskuslóðum Elizu og því sérstaklega ánægjulegt að koma hingað saman af þessu tilefni.

Landstjórahjónin buðu okkur formlega velkomin að viðstöddum heiðursverði í höfuðborginni Ottawa og þar átti ég einnig góðan fund með Justin Trudeau forsætisráðherra í húsakynnum þjóðþingsins. Þá var efnt til tveggja funda þar sem fjallað var um samfélagsmál sem eru mér hugleikin og varða hagsmuni beggja þjóða. Á þeim fyrri var fjallað um varðveislu tungumáls í fámennum málsamfélögum og kynntar aðferðir í notkun máltæknilausna á íslensku. Á síðari fundinum var sjónum beint að lýðheilsu ungmenna. Þar ræddu fulltrúar frá Planet Youth á Íslandi við kanadísk heilbrigðismálayfirvöld um íslenska forvarnarverkefnið sem innleitt hefur verið víða um lönd, þar á meðal í Kanada, undir merkjum Planet Youth.

Næstu daga munum við ferðast víðar um þetta mikla land ásamt sendinefnd og eiga fjölda funda sem styrkja munu enn frekar hin margþættu tengsl Íslands og Kanada.
Nánari upplýsingar og fleiri myndir frá opinberri heimsókn til Kanada má sjá hér á vefsíðu forsetaembættisins.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar