Fréttapistill | 10. okt. 2023

Stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum

Stórtíðindi urðu í íslenskum stjórnmálum í dag. Breytingar á ráðherraskipan ríkisstjórnar fara fram á ríkisráðsfundi sem senn verður boðað til.

Nú er einnig Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn - 10.október. Af því tilefni flyt ég ávarp á opinni dagskrá í Bíó Paradís kl. 14:00 þar sem öll eru velkomin. Saman og hvert um sig ættum við að reyna að muna eftir mikilvægi geðheilsu allan ársins hring. Geðorðin tíu hjálpa okkur til þess í dagsins amstri.
Í mínu embætti var vikan sem leið annasöm að vanda. Hinn árlegi Forvarnardagur fór fram 4. október og tók ég þátt í málstofu landlæknisembættisins í Borgarholtsskóla af því tilefni, auk þess sem ég heimsótti Sæmundarskóla í Grafarvogi og Seljaskóla í Breiðholti og ræddi þar við nemendur 9. bekkjar um gildi þess að huga að eigin heilsu og vellíðan.

Í vikunni flutti ég einnig opnunarávarp um slysavarnir á alþjóðaráðstefnunni EU Safety 2023, sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg stóð að, og setningarávarp alþjóðlegrar ráðstefnu höfundarréttarsamtakanna, IFRRO. Þar minnti ég á þau straumhvörf sem orðið hafa með þróun gervigreindar og nauðsyn þess að íslenskt mál nái að dafna í stafrænum heimi.

Á Bessastöðum tók ég á móti fjölda góðra gesta í vikunni. Ber þar fyrst að nefna gesti kvikmyndahátíðarinnar RIFF og afhenti ég þrenn heiðursverðlaun við það tilefni. Á föstudag tók ég á móti fulltrúum Einhverfusamtaka Rúmeníu sem voru hér á landi á vegum Specialisterne á Íslandi. Þá heimsótti Bessastaði fjölþjóðlegur hópur nemenda og kennara frá Menntaskólanum á Tröllaskaga sem taka nú þátt í ERASMUS-samstarfsverkefni á sviði sjálfbærni og loftslagsbreytinga.

Loks hitti ég körfuboltamanninn Enes Kanter Freedom sem er tyrkneskur að uppruna en var sviptur því ríkisfangi vegna gagnrýni sinnar á stjórnvöld í Ankara og hefur nú bandarískt vegabréf. Hann kveðst berjast fyrir mannréttindum hvarvetna og var hér á landi sökum vinatengsla við forystufólk Horizon, menningarfélags múslima á Íslandi.

Vikunni lauk með ánægjulegri athöfn í Bessastaðakirkju á laugardag þar sem ég sæmdi átta ungmenni forsetamerki skáta en ég nýt þess heiðurs að vera verndari skátahreyfingarinnar.Um þessi embættisverk og önnur má lesa á vefsíðunni www.forseti.is.

Birtist fyrst á facebook-síðu forseta 10. október 2023.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar