Saga fálkaorðunnar

Fálkaorðan er æðsta heiðursmerkið sem íslenska ríkið veitir mönnum Stofnað var til orðunnar árið 1921. Fálkinn vísar til þess að fálkar voru taldir glæsileg gjöf til tignarmanna á fyrri öldum og voru lengi útflutningsvara frá Íslandi auk þess sem fálki var uppistaðan í skjaldarmerki Íslands á árunum 1903-1919.

Þegar Kristján konungur X. og Alexandrine drottning heimsóttu Ísland sumarið 1921 var gefið út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu, undirritað í Reykjavík 3. júlí 1921. Á orðunni er mynd af fálka en í konungsbréfinu segir m.a. svo: „Oss hefur þótt rétt, til þess að geta veitt þeim mönnum og konum, innlendum og útlendum, sem skarað hafa fram úr öðrum í því að efla heiður og hag fósturjarðarinnar að einhverju leyti, opinbera viðurkenningu, að stofna íslenska orðu, sem Vér viljum að sé nefnd „Íslenski fálkinn“.“ Konungur Íslands var fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar.

Hina upprunalegu orðu teiknaði Hans Christian Tegner, prófessor við Listaháskólann í Kaupmannahöfn, í samvinnu við Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritara og Poul Bredo Grandjean skjaldarmerkjafræðing. Frumteikningar þeirra eru í vörslu forsetaembættisins.

Við hernám Danmerkur hinn 9. apríl 1940 varð hlé á orðuveitingum um nokkurt skeið. Þann 17. janúar 1942 gaf ríkisstjóri Íslands út bréf um að ríkisstjóri færi með orðuveitingavaldið og að forsætisráðherra bæri að skipa mann í orðunefnd í stað orðuritara sem var jafnframt konungsritari. Fyrstu orðuveitingar samkvæmt þessum nýju reglum fóru fram þennan sama dag.

Kristján konungur X. veitti eina fálkaorðu eftir samþykkt þessarar ályktunar og var það 1. desember 1943 er hann sæmdi Jón Hj. Sveinbjörnsson stórkrossi, „sem þann dag hafði verið ritari hans hátignar í 25 ár“. Konungur veitti heiðursmerkið með þeirri athugasemd að ekki hefði náðst til orðunefndar.

Gefið var út forsetabréf í Ríkisráði 11. júlí 1944 á Þingvöllum. Þáverandi forsætisráðherra, dr. Björn Þórðarson, lagði til ýmsar breytingar en konungskórónan var numin brott sem og nafn konungs sem stofnanda. Einkunnarorðum var breytt úr „Aldrei að víkja“ í „Eigi víkja“ og 17. júní 1944 kom í stað nafns stofnanda. Með stofnun lýðveldisins árið 1944 varð forseti Íslands stórmeistari fálkaorðunnar.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar