Halla Tómasdóttir
Forseti Íslands er þjóðhöfðingi Íslendinga. Hann er eini fulltrúinn sem kosinn er af allri þjóðinni í beinni kosningu. Embætti forseta var stofnað með lýðveldisstjórnarskránni sem tók gildi 17. júní 1944.
Halla Tómasdóttir er fædd í Reykjavík 11. október 1968. Móðir hennar er Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi en faðir Höllu, Tómas Björn Þórhallsson, pípulagningameistari lést árið 2008.
Halla útskrifaðist með verslunarpróf úr Verslunarskóla Íslands vorið 1986 og fór eftir það sem skiptinemi til Bandaríkjanna þar sem hún lauk menntaskólaprófi. Hún útskrifaðist svo með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla vorið 1989. Halla lauk BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og mannauðsmál við Auburn háskólann í Montgomery í Bandaríkjunum árið 1993 og MBA-gráðu við Thunderbird School of Global Management árið 1995. Loks stundaði hún nám til doktorsgráðu við Cranfield University í Bretlandi þar sem hún lagði stund á rannsóknir í leiðtogafræðum.
Að loknu námi starfaði Halla við mannauðsmál og stjórnun hjá M&M/Mars og Pepsi. Eftir tíu ára dvöl í Bandaríkjunum flutti hún aftur til Íslands og gerðist mannauðsstjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu og gekk skömmu síðar til liðs við Háskólann í Reykjavík. Þar kom hún að uppbyggingu skólans, setti á fót stjórnendaskóla og símenntun HR, leiddi verkefnið Auði í krafti kvenna og kenndi breytingastjórnun og stofnun og rekstur fyrirtækja.
Á árunum 2006-2007 starfaði Halla sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs en stofnaði svo fjármálafyrirtækið Auði Capital með það að markmiði að koma með aðra og mannlegri nálgun inn í fjármálageirann. Hún var ein af níu stofnendum Mauraþúfunnar sem stóð að Þjóðfundinum í Laugardalshöll árið 2009 og hefur einnig staðið fyrir alþjóðlegum ráðstefnum, meðal annars á sviði kynjajafnréttis.
Á árunum 2018-2024 starfaði Halla sem forstjóri félagasamtakanna The B Team. Þessi alþjóðlegu samtök beita sér fyrir ábyrgum viðskiptaháttum og samstarfi stjórnvalda, einkageirans og almennra borgara í að takast á við stórar áskoranir eins og loftslagsbreytingar og ójöfnuð. Halla tók við embætti forseta Íslands 1. ágúst árið 2024.
Halla hefur hlotið viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri, fengið viðurkenningu fyrir kennslu á MBA-stigi, jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar og árið 2009 var hún ásamt Kristínu Pétursdóttur valin kvenfrumkvöðull Evrópu af Cartier, McKinsey og INSEAD. Þá hefur hún flutt fjölmarga fyrirlestra á opinberum vettvangi, þar á meðal svonefnda TED-fyrirlestra (sbr. hér) og skrifað greinar og rætt um ábyrga forystu í fjölmiðlum eins og TIME, Fortune og CNN. Árið 2023 sendi Halla frá sér bókina Hugrekki til að hafa áhrif. Hún hefur setið í fjölmörgum stjórnum, svo sem Veritas Capital, Ölgerðarinnar, Hjallastefnunnar, Háskólans í Reykjavík, Calidris og stofnunar Leifs Eiríkssonar.
Halla er gift Birni Skúlasyni viðskiptafræðingi og eiga þau tvö börn, Tómas Bjart og Auði Ínu.