Slysavarnafélagið Landsbjörg

Slysavarnafélagið Landsbjörg var formlega stofnað 2. október 1999 þegar Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg, landssamband björgunarsveita, voru sameinuð undir einu merki. Félagið á hins vegar rætur sínar að rekja allt aftur til fullveldisársins 1918 þegar fyrsta björgunarsveitin var stofnuð í Vestmannaeyjum.

Við stofnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar urðu til ein stærstu samtök sjálfboðaliða á Íslandi með um 18 þúsund félögum sem starfa í björgunarsveitum, slysavarna- og unglingadeildum um landið allt. 

Tíð sjóslys og miklir mannskaðar af völdum þeirra mörkuðu upphafið að starfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Margar af björgunarsveitum félagsins við sjávarsíðuna eru sérhæfðar til leitar og björgunar á sjó og við strendur landsins. Hátt á annað hundrað björgunarbátar af öllum stærðum og gerðum eru til taks, búnir þrautseigum og vel þjálfuðum áhöfnum.

Öflugt fræðslu- og útgáfustarf einkennir starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt átaksverkefnum af ýmsum toga. Slysavarnaskóli sjómanna hefur verið starfandi innan félagsins frá árinu 1985 og er öllum sjómönnum skylt að sækja námskeið á hans vegum. Þá hefur námskeiðshald fyrir almenning og fyrirtæki verið ört vaxandi þáttur í starfi skólans á undanförnum árum. Innan unglingadeilda félagsins hefur mikill fjöldi unglinga fundið athafnaþrá sinni farveg til heilbrigðra, spennandi og uppbyggilegra starfa.

Forseti Íslands er verndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Vefur Slysavarnafélagsins Landsbjargar.