Forseti flytur ávarp á setningarathöfn Unglingalandsmóts UMFÍ, sem fram fer í Borgarnesi um verslunarmannahelgina, í samstarfi Ungmennafélags Íslands, Ungmennasambands Borgarfjarðar og sveitarfélagsins Borgarbyggðar.
Unglingalandsmótið hefur verið haldið um verslunarmannahelgi frá árinu 2002 sem vettvangur fyrir skipulagt tómstundastarf og samveru með foreldrum. Er það talið meðal lykilþátta í góðum árangri Íslands í forvarnarstarfi með ungmennum sem vakið hefur athygli á heimsvísu.
Mótið er opið ungmennum á aldrinum 11-18 ára alls staðar að á landinu og aðstandendum þeirra. Ungmennin etja þar kappi í 18 keppnisgreinum af ýmsu tagi, allt frá glímu og hjólreiðum til kökuskreytinga og stafsetningar. Auk þess er á mótinu boðið upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, tók á móti forsetahjónum ásamt fulltrúum UMFÍ og UMSB og fylgdi þeim á setningu mótsins, sem hófst kl. 20:00 með fánahyllingu. Forseti flutti ávarp við athöfnina og hvatti þar ungmenni jafnt sem foreldra til dáða. Að lokinni opnunarathöfn var forsetahjónum boðið til móttöku í Grunnskóla Borgarness ásamt fulltrúum ungmennahreyfingarinnar.