Forseti heimsækir 30 ára afmæli bæjarhátíðarinnar Danskra daga í Stykkishólmi og flytur hátíðarkveðju. Danskir dagar voru fyrst haldnir í Stykkishólmi árið 1994 og eru því með elstu bæjarhátíðum á Íslandi. Með hátíðinni vilja bæjarbúar minnast sögulegra tengsla Stykkishólms við Danmörku, en dönsk áhrif voru sterk í bæjarlífinu við myndun þéttbýlis á staðnum.
Bæjarhátíðin Danskir dagar stendur í þrjá daga og tók forseti þátt í fjölbreyttri hátíðardagskrá á laugardeginum í tilefni af 30 ára afmæli hátíðarinnar. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar Stykkishólms, tók á móti forsetahjónum og leiddi þau á fund kvenfélagskvenna í Kvenfélaginu Hringnum sem stofnað var í Stykkishólmi 1907. Þá heimsóttu forsetahjón Norska húsið, byggðasafn Snæfellinga- og Hnappdæla, þar sem Anna Melsted sýningarstjóri sagði frá sýningunni „Hjartastaður - Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900“.
Frá Norska húsinu var gengið yfir í vinnustofuna Tang og Riis þar sem Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi sagði forsetahjónum frá gömlu húsunum í miðbænum. Þá skoðuðu forsetahjón sýningu ellefu listamanna í gamla frystihúsinu, með leiðsögn Ingibjargar Ágústsdóttur listakonu.
Heimsókninni í Stykkishólm lauk á hátíðarsamkomu bæjarbúa á hafskipabryggjunni. Þar flutti Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri hátíðarávarp og kynnti forseta á svið þar sem hún færði bæjarbúum hátíðarkveðju.