Forseti ávarpar ráðstefnu Geimvísindastofnunar Íslands (ISA), sem haldinn er í Grósku í samvinnu við Vísindagarða og Háskóla Íslands. Fundinn sóttu fulltrúar allra helstu geimferðastofnana heims, sem staddir eru á Íslandi til að taka þátt í ráðstefnu alþjóðlegs vinnuhóps um vettvangsrannsóknir á Mars (International Mars Exploration Working Group, IMEWG).
Almenningi var boðið til opins fundar í Grósku þar sem sagt var frá því markverðasta í könnun geimsins og mögulegu hlutverki Íslands í þeim rannsóknum. Þetta er í fyrsta sinn sem fundur IMEWG er opinn almenningi. Í ávarpi sínu ræddi forseti um nýsköpun og vísindi sem hreyfiafl framfara. Skilningur á himingeimnum sé jafnframt lykillinn að dýpri skilningi á okkar eigin plánetu. Forseti rakti jafnframt hlutverk Íslands í sögu tunglferða og annarra geimáætlana og áréttaði að þrátt fyrir smæð samfélagsins gæti Ísland lagt sitt af mörkum. Þannig gæti framlag Íslands til Artemis-geimáætlunarinnar meðal annars falist í að stuðla að því að kona stígi fæti á Mars. „Jafnrétti kynjanna ætti að mínu viti að vera leiðarljós í öllum framförum bæði í mannlegri þekkingu og gervigreind. Það er lykillinn að því að skapa lífvænlega plánetu og framtíð þar sem mannkyn allt fær þrifist," sagði forseti.