Forseti tekur á móti nýjum sendiherra Danmerkur, Eric Vilstrup Lorenzen, sem afhendir trúnaðarbréf sitt á Bessastöðum. Rætt var um náin tengsl Íslands og Danmerkur og möguleika á auknu samstarfi milli ríkjanna, ekki síst á sviði grænna orkuskipta. Einnig var rætt um andlega heilsu ungs fólks í báðum löndum og um þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu.
Þá var rætt um fyrirhugaða ríkisheimsókn forseta til Friðriks X. Danakonungs, en venju samkvæmt fer nýkjörinn forseti Íslands í sína fyrstu opinberu heimsókn til Danmerkur.
Að lokinni afhendingu trúnaðarbréfs forseta heilsaði forseti starfsfólki danska sendiráðsins á Íslandi. Loks var boðið til móttöku fyrir embættismenn og fulltrúa úr íslensku samfélagi sem sinna samskiptum Íslands og Danmerkur.