Forseti setur Alþingi við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Í ávarpi sínu vék forseti að þeim flóknu og fjölbreytilegu málum sem bíði úrlausnar Alþingis og áréttaði að landsmenn horfi til þingmanna um farsæl störf og árangursrík. Lýðræðið krefjist málamiðlana, samninga- og sáttaferla sem leitt geti til heppilegrar niðurstöðu fyrir þorra þjóðarinnar.
„En í flóknum málum er ekkert eitt svar. Lausnin er marglaga. Hlustum eftir sjónarmiðum annarra og mætum hvert öðru í mildi; tölum saman af virðingu fyrir ólíkri lífsreynslu og skoðunum. Lyftum okkur upp yfir dægurþras. Aðrar þjóðir standa frammi fyrir sömu spurningum. Lærum af því sem vel er gert hjá grannþjóðum okkar."
Engir flokkadrættir um velferð unga fólksins
Forseti vék sérstaklega að málefnum ungu kynslóðarinnar í ávarpinu. „Nú við þingsetningu ber þann skugga á að þjóðin er harmi slegin eftir hnífsstungu síðastliðna Menningarnótt sem hafði óbærilegar afleiðingar. Við fyllumst vanmætti við slíkar aðstæður. Því hvað er þýðingarmeira í samfélagi manna en fólkið okkar? Unga fólkið okkar í blóma lífsins. Líkt og þingið hefja skólar um land allt nú starf í skugga þessa harmleiks.
Okkur hér – okkur ber að hlúa að börnum okkar, tryggja öryggi þeirra og koma þeim til manns. Vera þeim góð fyrirmynd í því hvernig við bregðumst við og hjálpa þeim með sín viðbrögð. Foreldrar Bryndísar Klöru Birgisdóttur hafa biðlað til okkar að gera kærleikann að eina vopninu í okkar samfélagi. Hvernig ætlum við að verða við því ákalli?
Okkur rennur blóðið til skyldunnar. Við verðum, og við skulum komast fyrir ræturnar á slæmri þróun svo svona atburður endurtaki sig ekki. Um það sameiginlega hlutverk okkar eru engir flokkadrættir."
Ávarp forseta má lesa hér á íslensku og í enskri þýðingu.