Forseti tekur á móti bresk-bandaríska rithöfundinum Salman Rushdie, handhafa Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness árið 2024. Rushdie hefur sent frá sér fimmtán skáldsögur á ferlinum. Þekktastar eru Söngvar Satans, Miðnæturbörn, og Hinsta andvarp márans, sem þýddar hafa verið á íslensku. Nýjasta verk hans er sjálfsævisögulega bókin Hnífur þar sem Rushdie fjallar um banatilræði sem honum var sýnt árið 2022.
Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars að skáldsögur Salmans Rushdies séu heillandi, heimspekilegar og upplýsandi sögur fyrir lesendur sem eru tilbúnir að uppgötva nýja heima. Fyrir lesendur um heim allan hafi ímyndin um Rushdie, sem í meira en þrjátíu ár hefur haldið áfram að skrifa skáldsögur sínar þrátt fyrir dauðadóm klerkastjórnarinnar í Íran, í framhaldi af útgáfu verksins Söngvar Satans, og banatilræðið sem honum var sýnt í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum, orðið að táknmynd hugrekkis og óbeygjanlegs vilja.
Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru veitt höfundum sem þekktir eru á alþjóðavísu fyrir að „stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum," en þannig hljómaði rökstuðningurinn fyrir Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness árið 1955. Verðlaununum er ætlað að halda á lofti nafni nóbelskáldsins á alþjóðlegum vettvangi og eru þau veitt annað hvert ár. Fyrri verðlaunahafar eru Ian McEwan, Elif Shafak og Andrei Kúrkov.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra afhenti Salman Rushdie verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskólabíói þann 14. september. Að verðlaununum standa Alþjóðlega bókmenntahátíðin í Reykjavík, Forlagið, Gljúfrasteinn, forsætisráðuneytið, menningar- og viðskiptaráðuneytið og Íslandsstofa.