Forsetahjón heimsækja íbúa á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík í tilefni af réttardegi sem þar er haldinn árlega að hausti. Þá gerir heimilisfólk sér glaðan dag í anda fjárleitarmanna en víða um land er fé smalað til rétta um þessar mundir.
Theodóra Hauksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, tóku á móti forsetahjónum og fylgdu þeim fyrst með leiðsögn um 2. hæð hjúkrunarheimilisins þar sem 31 býr. Forsetahjón ræddu við heimilisfólk og heimsóttu nokkur þeirra.
Að því loknu var forsetahjónum boðið að snæða íslenska kjötsúpu á borðsal með íbúum 60 ára og eldri. Forseti ávarpaði salinn og að loknum hádegisverði var svo efnt til hópsöngs við gítarspil þar sem sígild, íslensk dægurlög voru á efnisskránni.