• Forseti og Friðrik X. Danakonungur heimsækja State of Green í Kaupmannahöfn, systurstofnun Grænvangs. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir
  • Forseti ávarpar dansk-íslenskt viðskiptaþing í Kaupmannahöfn. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir
  • Eftir undirritun viljayfirlýsing Grænvangs og State of Green um aukið samstarf þeirra á milli. Ljósmynd: Hildur María Valgarðsdóttir
Fréttir | 09. okt. 2024

Verndari Grænvangs

Forseti gerist verndari Grænvangs sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Greint var frá þessari ákvörðun á dansk-íslensku viðskiptaþingi sem efnt var til í Kaupmannahöfn í tilefni af ríkisheimsókn forseta til Danmerkur.

Sjá einnig ljósmyndasafn frá ríkisheimsókn til Danmerkur.

Forseti og Friðrik X. Danakonungur ávörpuðu bæði viðskiptaþingið sem fór fram í húsakynnum State of Green og Dansk Industri, danskra systurstofnanna Grænvangs og Samtaka iðnaðarins. Forseti greindi þá frá ákvörðun sinni um að taka að sér verndarahlutverkið. Svo tóku við pallborðsumræður þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt ásamt Lars Aagaard, ráðherra loftslags- og orkumála í Danmörku.

Afrakstur tveggja ríkisheimsókna til Danmerkur

Viðburðurinn var hluti af dagskrá viðskiptasendinefndar með fulltrúum um 50 íslenskra fyrirtækja sem fylgdu forseta til Kaupmannahafnar. Á þinginu var rætt um orkumál, grænar lausnir og samstarf þjóðanna. Í lok viðskiptaþingsins verður undirrituð viljayfirlýsing Grænvangs og State of Green um aukið samstarf þeirra á milli.

Grænvangur var stofnaður að danskri fyrirmynd árið 2019 í kjölfarið af ríkisheimsókn þáverandi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, en þá var State of Green einnig heimsótt. Friðrik X. Danakonungur hefur verið verndari State of Green frá stofnun þess vettvangs árið 2008.

Grænar lausnir í loftslagsmálum

Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Auk þess styður Grænvangur við útflutning grænna lausna frá Íslandi með markaðsverkefninu Green by Iceland í samstarfið við Íslandsstofu.

Bakland Grænvangs samanstendur af íslenskum stjórnvöldum og leiðtogum atvinnulífsins í loftslagsmálum.

Þessi síða notar fótspor
Skoða nánar