Forseti fundar með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á Bessastöðum vegna tillögu hans um að þing verði rofið og boðað til kosninga. Í lok fundarins ræddi forseti við fjölmiðla og gaf út eftirfarandi yfirlýsingu:
„Nú í morgun gekk Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á minn fund og lagði fram tillögu um þingrof og í kjölfarið almennar kosningar til Alþingis í lok nóvember. Samkvæmt tillögu ráðherra situr ríkisstjórnin fram til kosninga.
Fallist ég á tillögu forsætisráðherra um þingrof skal samkvæmt 24. grein stjórnarskrár boða til kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því tilkynnt er um þingrofið.
Ég hef átt samtöl við forsætisráðherra síðustu daga og í gærkvöldi ræddi ég við formenn hinna stjórnmálaflokkanna sem eiga aðild að núverandi ríkisstjórn. Ég hyggst nú gefa mér tíma til að ræða einnig við formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Að þeim fundum loknum mun ég leggja mat á stöðu mála áður en ég tek afstöðu til tillögunnar. Ég mun svo gera grein fyrir ákvörðun minni síðar í vikunni.
Ég mun ekki taka spurningar í dag enda hef ég engu við þetta að bæta að sinni."