Forseti á fund með forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, þar sem ráðherrann baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Að fundi loknum ávarpaði forseti fjölmiðla og fór með eftirfarandi yfirlýsingu:
„Í gær lagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fram tillögu um þingrof. Ég tók við þeirri tillögu en gaf mér jafnframt tíma og svigrúm til að gaumgæfa stöðuna. Ég hef nú rætt við formenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn og við formenn annarra þingflokka og kannað hug þeirra til þingrofs og kosninga. Nú í morgun ræddi ég jafnframt við forseta Alþingis. Að loknum þeim samtölum met ég stöðuna svo að heillavænlegast sé fyrir þing og þjóð að gengið verði til kosninga.
Því hyggst ég fallast á þá tillögu forsætisráðherra að þing verði rofið. Samkvæmt 24. grein stjórnarskrár skal boða til kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá formlegri tilkynningu um þingrof. Á næsta fundi Alþingis, fimmtudaginn 17. október, verður þingrof tilkynnt og fara kosningar fram 30. nóvember næstkomandi.
Forsætisráðherra gekk á minn fund hér á Bessastöðum í dag og baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Ég hef fallist á þá lausnarbeiðni hans. Í samræmi við stjórnskipunarvenju bað ég fráfarandi ríkisstjórn að sitja áfram sem starfsstjórn uns tekist hefur að mynda nýja ríkisstjórn.
Frumskylda mín sem forseta er að tryggja að í landinu sé starfhæf stjórn. Ríkisstjórn sem beðist hefur lausnar situr sem starfsstjórn til bráðabirgða. Í því felst að hún gegnir þeim störfum sem nauðsynleg eru við daglega stjórn landsins. Þingmenn halda umboði sínu til kjördags og geta því lokið mikilvægum málum sem fyrir þinginu liggja.
Senn göngum við til kosninga. Ég vil af því tilefni beina þeirri ósk til þings og þjóðar að við vöndum okkur í samtalinu sem fram undan er og varðar framtíð þessarar þjóðar. Virkt lýðræði krefst skoðanaskipta og í heilbrigðu samfélagi getum við öll skipst á skoðunum með virðingu, mennsku og heiðarleika að leiðarljósi.
Kosningabarátta er nú í reynd hafin og vil ég leyfa því lýðræðislega ferli að hafa sinn gang án afskipta forseta. Ég mun því ekki svara spurningum fjölmiðla í dag. Þakka ykkur fyrir."